Vöru bætt við körfu

Kilbeggan

Kilbeggan

Viskígerðin í Kilbeggan á sér langa sögu enda fyrst sett á laggirnar árið 1757. Fyrir bragðið á fyrirtækið í fórum sínum elsta viskígerðarleyfið á öllu Írlandi.  Fyrirtækið skipti nokkrum sinnum um hendur næstu 200 árin eða svo og framleiddi viskí sleitulaust á meðan, þrátt fyrir ýmis áföll. Þar á meðal var Bindindishreyfingin mikla sem stofnuð var árið 1838 og náði slíku fylgi að stór hluti Íra sór bindindi fyrir lífstíð á nokkrum árum með lamandi afleiðingum fyrir viskígerð á Írlandi almennt. Kreppan mikla á árunum í kringum 1930 hafði líka erfið áhrif á Kilbeggan og svo fór loks að framleiðslu var hætt árið 1954. Á 200 ára afmælinu, 1957, lokaði fyrirtækið alveg.

Næstu áratugina drabbaðist húsakostur viskígerðarinnar niður og lá undir skemmdum, heimamönnum til sárrar hryggðar. Þeir tóku sig loks til 25 árum seinna, árið 1982, og efndu til samskota í sveitinni til að standa straum af viðgerð og opnun hússins, með hjálp sveitastjórnarinnar. Fyrst um sinn var Kilbeggan aðeins minjasafn um viskígerð fyrri tíma en neistinn hafði verið tendraður. Öðrum aldarfjórðungi síðar, árið 2007, hófst viskígerð aftur á staðnum undir fornfrægu merki Kilbeggan og á síðasta ári komu fyrstu flöskurnar af Kilbeggan Irish Whiskey, frá hinu endurreista viskíhúsi, á markaðinn.

Þó nýir tímar séu gengnir í garð og ferskir vindar blási um Kilbeggan er hefðin og sagan hvarvetna sýnileg í viskígerðinni. Kopar-eimarinn sem notaður er Í Kilbeggan er sá elsti í heimi, og viskíð er framleitt eftir ævagömlum aðferðum uns það er sett á eikartunnur og „látið sofa“ eins og heimamenn kalla það uns það er tilbúið, og englarnir hafa tekið sinn skerf. Enn í dag er írskt bygg notað til viskígerðarinnar, og gamla vatnsmylluhjólið við aðalbygginguna, sem áður var notað til þreskingar á korninu, snýst enn eins og það hefur gert frá því á 19. öld.

Kilbeggan er ungt en bragðmikið viskí, og best fer á því að njóta þess í glasi sem andar vel og leyfir hinum gullna vökva að vakna sæmilega. Í nefi er það milt og ljúft þar sem hnetukeimur og bygg koma saman ásamt mildum keim af móreyk. Í munni hefur Kilbeggan góða fyllingu með sætukeim sem minnir á hunang og vanillu. Eikartónninn af ámunum kemur svo fram í þægilegu eftirbragðinu.

Kilbeggan Vörur

Leitarniðurstöður

Vöru bætt við körfu

Ekki næg lagerstaða til fyrir þessa vöru

Ekki næg lagerstaða fyrir vöru:

Staða á lager er

Ekki næg lagerstaða fyrir vöru:

Staða á lager er